Micah 5

1Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum. 2Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal, en þá munu leifar ættbræðra hans hverfa aftur til Ísraelsmanna. 3Þá mun hann standa og halda þeim til haga í krafti Drottins, í hinu tignarlega nafni Drottins Guðs síns, og þeir skulu óhultir búa, því að þá skal hann mikill vera til endimarka jarðar. 4Og þessi mun friðurinn vera: Brjótist Assýringar inn í land vort og stígi þeir fæti á ættjörð vora, þá munum vér senda í móti þeim sjö hirða og átta þjóðhöfðingja, 5og þeir munu herja land Assýringa með sverði og land Nimrods með brugðnum brandi. Og þannig mun hann frelsa oss frá Assýringum, er þeir brjótast inn í land vort og stíga fæti á fold vora. 6Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi, þeir er bíða ekki eftir neinum og vænta ekki neins af mannanna börnum. 7Og leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem ljón meðal skógardýra, sem ljónshvolpur í sauðahjörð, sá er niður treður þar sem hann veður yfir og sundur rífur, án þess að nokkur fái bjargað. 8Armleggur þinn mun hrósa sigri yfir mótstöðumönnum þínum og allir óvinir þínir munu afmáðir verða. 9Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég eyða öllum þeim víghestum, sem þú átt í landinu, og gjöra að engu hervagna þína, 10ég vil eyða borgum lands þíns og rífa niður öll virki þín, 11ég vil eyða öllum töfrum hjá þér, og spásagnamenn skulu eigi framar hjá þér vera. 12Ég vil eyða skurðmyndum þínum og merkissteinum, þeim er hjá þér eru, og þú skalt ekki framar falla fram fyrir verkum handa þinna. 13Ég vil brjóta niður asérur þínar og eyðileggja guðalíkneski þín, 14og ég vil með reiði og gremi hefnast á þjóðunum, er eigi hafa hlýðnast.
Copyright information for Icelandic